Stjórnendur Kviku hafa ákveðið að selja hlut félagsins í Íslenskum verðbréfum til hóps fjárfesta, en eignarhlutur Kviku nemur alls um 66,35% af heildarhlutafé fyrirtækisins. Gert er ráð fyrir að formlega verði tilkynnt um viðskiptin á næstu dögum.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru kaupendur um 20 talsins og eru þar á meðal lífeyrissjóðir, fyrirtæki og fagfjárfestar og mun enginn einstakur fjárfestir eiga meira en 10% í kaupsamningnum. Kaupendur eru alls staðar af landinu, að því er heimildarmenn Viðskiptablaðsins herma. Viðskiptablaðið hefur ekki upplýsingar um alla þá sem í kaupendahópnum eru, en þar á meðal eru Stapi lífeyrissjóður og Kaldbakur, dótturfélag Samherja.

Starfsemi Íslenskra verðbréfa verður eftir sem áður á Akureyri, en fyrirtækið er einnig með skrifstofu í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum frá Kviku hefur enginn samþætting átt sér stað milli Kviku og Íslenskra verðbréfa og því kalli salan á fyrirtækinu ekki á breytingar á starfsemi bankans.