Kvika banki hf., sem áður var MP banki og Straumur fjárfestingarbanki, tapaði 483 milljónum króna á árinu sem leið. Tapið skýrist helst af því að bankinn réðst í miklar hagræðingaraðgerðir á árinu og voru einskiptisliðir því umfangsmiklir og kostnaðarsamir.

Hagnaður félagsins af reglulegri starfsemi nam 685 milljónum króna, en hreinar þóknanatekjur námu 2,6 milljörðum króna. Þóknanatekjurnar hækkuðu þá um 878 milljónir milli ára. Vaxtatekjur námu þá 1,1 milljarði króna og lækkaði milli ára. Lækkunin er skýrð í tilkynningu frá bankanum sem afleiðing hærra hlutfalls lausafjáreigna.

Heildareignir samstæðunnar námu þá 61 milljarði króna í lok árs samanborið við 49,3 milljarða í byrjun þess, sem er 25% aukning í eignum félagsins. Þá má rekja þessa miklu aukningu til fyrrnefnds samruna á sama hátt og rekja má  afkomu félagsins til hans.

CAR-hlutfall (Capital Adequacy Ratio) bankans hækkaði mikið á árinu og var 23,5% í lok árs samanborið við 17,4% í árslok 2014. Eiginfjárstaðan er því sterk og vel umfram lágmarkskröfu eftirlitsaðila um 11,8% eiginfjárhlutfall. Handbært fé í árslok nam 19,9 milljörðum króna sem er hækkun um 6,9 milljarða á árinu. Aðrar lausafjáreignir námu 17,8 milljörðum.