Í gær tilkynnti fjárfestingabankinn Kvika að stefnt væri að því að skrá bankann á Aðalmarkað Kauphallar Íslands. Viðskiptablaðið greindi frá tilkynningunni en í henni kom fram að stefnt væri að því að skráningin gengi í gegn á næstu 6-12 mánuðum.

Hlutabréf Kviku voru tekin til viðskipta á Nasdaq First North Iceland þann 16. mars síðastliðinn. Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, segir í samtali við Viðskiptablaðið að stjórnendur bankans hafi verið á báðum áttum hvort þeir ætluðu að skrá bankann á First North eða Aðalmarkað Nasdaq Iceland. Hann segir að mikil umræða hafi átt sér stað innanhúss um málið.

Kostnaðurinn ekki mikið meiri

„Við erum að þeirri stærð að kostnaður við að vera á Aðalmarkaði er ekki mikið meiri heldur en á First North. Það eru margir fjárfestar sem fjárfesta aðeins í fyrirtækjum sem skráð eru á Aðalmarkað þannig að þetta er skref sem við vildum taka. Síðan hefur verið mikil fjölgun í hluthafalistanum í kjölfar þess að VÍS hóf að borga sínum hluthöfum arð ," segir Ármann.

Hann nefnir einnig að meiri auðseljanleiki bréfa og meiri verðmyndun á markaði hafi verið önnur ástæða þess að þessi ákvörðun hafi verið tekin.

Fyrirtæki sem ætlar að skrá hlutabréf sín á Aðalmarkað Kauphallarinnar þarf að uppfylla ýmis skilyrði en þau eru nánar tilgreind á heimasíðu Kauphallarinnar .

„Kvika er nú þegar skráð á First North þannig að við uppfyllum nú þegar mörg af þeim skilyrðum sem nauðsynlegt er að uppfylla fyrir skráningu á Aðalmarkað. En svo eru skilyrðin sem eru ítarlegri á Aðalmarkaði heldur en First North eru þau sem snúa að upplýsingalöggjöf og slíku."

Mikið í myndun

Í gær barst einnig tilkynning frá Kviku að bankinn hafi lokið við fjármögnun og stofnun nýs framtakssjóðs sem ber heitið FREYJA. Heildaráskriftarloforð sjóðsins nema 6,2 milljörðum króna og mun sjóðurinn í upphafi vera 3,5 milljarðar. FREYJA er þriðji framtakssjóðurinn í eigu Kviku.

Aðspurður hvort fleiri tilkynningar um verkefni af sviðuðum toga séu í vændum segir Ármann að það sé mikið í myndun hjá bankanum en hann geti þó ekki nefnt neitt eitt ákveðið.

„Við skrifuðum náttúrulega þarna á dögunum undir viljayfirlýsingu um yfirtöku á GAMMA og síðan tilkynntum við um þennan nýja sjóð í gær," segir hann og bætir við að hann sé bjartsýnn að heimild fáist fyrir yfirtöku bankans á fyrirtækinu.