Skuldir Kvikmyndaskóla Íslands nema um 130 milljónum króna og hækkuðu milli ára um 60 milljónir, samkvæmt minnisblaði Ríkisendurskoðunar um stöðu skólans frá 18. ágúst síðastliðnum. Skjalinu hefur verið dreift innan Alþingis og hefur Viðskiptablaðið það undir höndum. Í minnisblaðinu kemur fram að upplýsingar um skuldirnar séu frá skólanum sjálfum.

Í samtali við Viðskiptablaðið sagði Böðvar Bjarki Pétursson, stofnandi og eigandi skólans, að hækkun skulda milli ára sé þó eitthvað lægri en þarna kemur fram. Hann hafði ekki séð minnisblaðið þegar Viðskiptablaðið spurði út í innihald þess. Frá árinu 2007 hafi verið tap á rekstri skólans um 18 til 25 milljónir á ári, sem skýrist af undirfjármögnun. Hann tekur fram að þeim hafi verið tjáð að ekki leiki grunur á misferli í rekstrinum.

Í minnisblaðinu segir að „hvort sem samið verður við skólann um áframhaldandi framlög eða ekki tel ég fulla ástæðu til að Ríkisendurskoðun ráðist í sérstaka úttekt á því hvernig farið hefur verið með framlag ríkisins til hans“. Fram hefur komið að ráðherra hefur óskað eftir slíkri úttekt en það er ákvörðun Ríkisendurskoðunar hvort ráðist verður í hana.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.