Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup félagsins Kvosar á Plastprenti. Kaupin voru samþykkt með nokkrum skilyrðum sem lúta að rekstri fyrirtækjanna á umbúðamarkaði. Það er Framtakssjóðurinn sem selur fyrirtækið og greiðir Kvos 206 milljónir króna fyrir það. Kaupin verða fjármögnuð að hluta til með auknu hlutafé, að því er fram kemur í tilkynningu. Baldur Þorgeirsson hjá Kvos verður framkvæmdastjóri Plastprents.

Kvos er móðurfélag prentsmiðjunnar Odda sem starfar á sambærilegu sviði og Plastprent. Í tilkynningu um kaupin segir að vöruframboð Plastprents kemur sem viðbót við vöruval Odda og gerir fyrirtækjunum kleift að veita öflugri þjónustu með breiðara vöruframboði.

Tilkynnt var um kaup Kvosar á Plastprenti í sumar enda stutt síðan félagið fór í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu.

Kvos kom illa undan hruni krónunnar fyrir fjórum árum og skuldaði félagið 8,8 milljarða króna í lok árs 2009. Félagið fór í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu sem lauk í fyrra en í henni afskrifuðu Arion banki og Landsbankinn skuldir Kvosar og tengdra félaga upp á tæpa 5 milljarða króna. Sömu eigendur eiga Kvos í dag og fyrir hrun. Þar á meðal er Baldur Þorgeirsson, sem var stærsti eigandi Kvosar.