Kvos hefur náð sérleyfissamningi við bresku prentkeðjuna Printing.com um að byggja upp prentþjónustu og sölustarfsemi að þeirra fyrirmynd á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum.

Í fréttatilkynningu kemur fram að Printing.com er 10 ára gamalt fyrirtæki sem hefur slegið í gegn í Bretlandi. Framsækin viðskiptahugmynd fyrirtækisins hefur vakið mikla athygli og fært fyrirtækinu bæði verðlaun og fjárhagslega velgengni. Printing.com er það fyrirtæki í breska prentiðnaðinum sem hefur sýnt mestan vöxt, bæði í tekjum og afkomu.


Aðferðafræði fyrirtækisins snýst í stuttu máli um skýra og vel útfærða viðskiptahugmynd, framúrskarandi þjálfunarkerfi fyrir starfsmenn ásamt því að einfalda öll samskipti við kaup á prentgripum fyrir viðskiptavinum. Með vel skipulögðum og hagkvæmum rekstri njóta viðskiptavinir síðan samkeppnishæfra verða um leið og þeim er tryggð framúrskarandi þjónusta fagaðila.

Hér heima hefur verið stofnað sérstakt fyrirtæki um reksturinn, Prentun.com, með starfstöð að Ármúla 34 í Reykjavík. Prentun.com mun einbeita sér að þjónustu við stjórnendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja ásamt þjónustuaðilum við prentiðnaðinn (auglýsingastofum, grafískum hönnuðuðum og ljósritunarþjónustufyrirtækjum).

Sú breyting verður einnig með tilkomu Prentunar.com að smærri prentframleiðendur og þjónustuaðilar um allt land geta átt samstarf við fyrirtækið. Viðkomandi fá þá einfaldan aðgang að vöruframboði, markaðsefni og námskeiðakerfi Prentunar.com og geta þannig margfaldað sitt eigið þjónustu- og vöruframboð án þess að leggjast í umtalsverðar fjárfestingar.

Prentun.com mun einnig bjóða upp á þjónustu grafískra hönnuða og markaðsfræðinga en framkvæmdastjóri er Rafn Benedikt Rafnsson, rekstrarhagfræðingur. Rafn segir í tilkynningu að mikið ánægjuefni að aðferðarfræði Printing.com hafi skotið rótum á Íslandi. ?Í þessu kerfi er ávinningur og þarfir viðskiptavina leiðarljósið og er öll þjónustan miðuð við hagkvæmni í innkaupum og hönnun prentgripa. Allt er haft sem einfaldast og aðgengilegast þannig að sem flestir geti notað þjónustu okkar til að ná auknum árangur í sölu-, kynningar- og markaðsstarfi sínu.?

Uppbygging í Færeyjum og Grænlandi mun hefjast næstu misseri en allir prentgripir verða framleiddir hjá OPM sem er stærsta og fullkomnasta prentsmiðja Íslands.