Arion banki telur það almennt jákvætt að sett verði á stofn sérstakt kvótaþing eins og gert er ráð fyrir í nýju frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða.

Þetta kemur fram í umsögn um bankans um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða og frumvarp til laga um veiðigjald. Bankinn hrósar einnig takmarkaðri aðild að strandveiðum.

Í umsögn bankans segir meðal annars:

„Slíkt [kvótaþing] er almennt til þess fallið að stuðla að gagnsæjum viðskiptum og virkari verðmyndun á aflamarki. Þá telur bankinn það jákvætt að ákveðið hlutfall af tekjum vegna ráðstöfunar á aflamarki úr flokki 2, fari til markaðs og þróunarsjóðs, sbr. 19. gr. frumvarpsins, að fyrirmynd Norðmanna, enda muni það að öllum líkindum skila sér í betri ímynd og auknu verðmæti íslenskra sjávarafurða á alþjóðlegum mörkuðum.

Þá telur bankinn það jákvætt skref að takmarka aðild að strandveiðum þannig að hver einstakur lögaðili geti aðeins átt aðild að einu strandveiðileyfi enda tilgangur með sérstökum strandveiðileyfum augljóslega ekki annar en að styðja við einyrkjaútgerðir og að auka við atvinnu og afleidda starfsemi í hinum allra smæstu byggðarlögum.“