Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur lagt til að engar loðnuveiðar verði stundaðar í Barentshafi á næsta ári. Frá þessu er greint á vef samtaka norskra útvegsmanna.

Ef þessari ráðgjöf verður fylgt væri það í fyrsta sinn frá árinu 2008 sem engar loðnuveiðar væru í Barentshafi. Veiðar lágu niðri 2004 til 2008 vegna þess hvað loðnustofninn var í slöku ástandi.

Það er Norsk-rússneska fiskveiðinefndin sem ákveður loðnukvótann í Barentshafi. Í ráðgjöf ICES til nefndarinnar kemur fram að veiðistofn loðnu í mælingum í leiðangri haustið 2015 hafi verið metinn 446 þúsund tonn. Í leiðangrinum hafi 2014 árgangurinn mælst langt undir langtímameðaltali.

Frá árinu 2009 hefur norsk-rússneska fiskveiðinefndin ávallt farið eftir ráðgjöf ICES ef frá er talin vertíðin í ár. Þá lagði ICES til að kvótinn yrði 6 þúsund tonn en nefndin ákvað að veiða mætti 120 þúsund tonn á árinu 2015.