Í launarannsókn Hagstofu Íslands byggðum á gagnagrunni með 70 þúsund launamönnum sem náði yfir sex ára tímabil frá árinu 2008 til 2013 kemur fram að kynbundinn launamunur hafi minnkað úr 7,8% árið 2008 í 5,7% árið 2013.

Í frétt Velferðarráðuneytisins um málið kemur fram að í könnuninni var ákveðið að leggja til grundvallar stýribreytur byggðar á kyni, atvinnugreinaflokkun, starfaflokkun, vinnutíma, menntun og starfsreynslu/aldur.

17,4% ef regluleg laun eingöngu skoðuð

Þessi munur virðist því standa eftir þegar tekið hefur verið tillit til allra málefnalegra ástæðna sem gætu skýrt launamun, s.s. starfshlutfall, fjölda vinnustunda, vinnutíma, menntun, mannaforráð og svo framvegis að því er fram kemur í fréttinni.

Ef hins vegar er ekki tekið tillit til þessara þátta heldur eingöngu skoðuð regluleg laun karla og kvenna fyrir dagvinnu, hafa karlar að jafnaði 17,4% hærri laun að meðaltali en konur.

Heildarlaunamunur meira en fimmtungur

Munurinn er síðan meiri ef horft er til heildarlauna, en þá er hann orðinn 21,5%, en í því samhengi þá er nefnt að fleiri karlar hafi mannaforráð, en fleiri konur séu með háskólapróf.

Ekki einungis virðist dragast saman með kynjunum þá virðist munurinn einnig fara minnkandi eftir aldri, en óleiðréttur munur í aldursflokknum 18 til 27 ára var kominn niður í 5% meðan hann var 23% í aldurshópnum 58 til 67 ára.

Konur með 3% hærri laun

Hins vegar voru konur á opinbera markaðnum á yngsta aldursbilinu með 3% hærri laun en karlar í sömu stöðu, þó hann væri körlum 22% í vil í elsta aldurshópnum.

Launamunurinn mældist meiri á almennum vinnumarkaði en hinum opinbera ef horft er til talnanna sem hafa verið leiðréttar.