Fjárfestingaáætlun Evrópusambandsins (ESB), þar sem gerð verður tilraun til að hafa áhrif á efnahagsþróun ríkja sambandsins, verður kynnt í dag. Samkvæmt áætluninni mun 21 milljarði evra verða varið í fjárfestingar til þess að örva hagvöxt og atvinnuþátttöku. BBC News greinir frá þessu.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, segir að fjárhæðin verði fyrst og fremst notuð til þess að örva markaðinn og hvetja einkaaðila til frekari fjárfestinga. Vonast hann til þess að fjárhæðin verði fimmtán sinnum hærri eftir tilkomu þeirra, sem myndi taka byrðina af ríkissjóðum sem þegar séu að berjast við miklar skuldir.

Gagnrýnendur hafa sagt að fjárhæðin sé alltof lág til þess að hafa tilætluð áhrif og mun meiri peninga þurfi til þess að ná árangri. Juncker telur það hins vegar ekki vænlegan kost og segir að Evrópa þurfi að takast á við vandann án þess að prenta peninga eða breyta reglunum að einhverju leyti.