Svanhildur Konráðsdóttir, sem starfar nú sem sviðstjóri Menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar, hefur verið ráðin forstjóri tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu.

„Harpan er dásamlegt hús, en ég hef tengst þessu verkefni með einum eða öðrum hætti í allmörg ár, fyrst og fremst sem fulltrúi borgarinnar,“ segir Svanhildur sem lýsir sjálfum sér sem miklum menningarnjótanda.

„Það eru alger forréttindi að fá að starfa við það sem maður nýtur mest. Hlutverk forstjórans er að stýra þessum rekstri og leiða starfsemina í samræmi við eigendastefnuna, um að þetta sé menningarhús sem hafi samfélagslegu hlutverki að gegna, auk þess að vera segull á alþjóðlegar ráðstefnur og svo framvegis.“

Svanhildur er spennt fyrir auknum möguleikum til ráðstefnuhalds með tilkomu samstarfs við hótel Marriott sem er að rísa við Hörpu.

„Þarna eru tvær meiri háttar listastofnanir, Sinfóníuhljómsveitin og Íslenska óperan, sem auðvitað eru kjölfestan í húsinu, auk þess sem Stórsveit Reykjavíkur á sitt heimili þar. Húsið er jafnframt opið fyrir allar gerðir tónlistar og viðburða eins og dæmin sanna,“ segir Svanhildur. „En það er ekki nokkur vafi að við eigum heilmikið inni sem ráðstefnuborg.“

Svanhildur er fædd og uppalin á Akureyri en hóf á ungum aldri störf við fjölmiðlun þegar hún flutti til Reykjavíkur og var hún meðal annars ritstjóri Mannlífs áður en hún fór til Bretlands í nám.

„Það voru mikil viðbrigði, sérstaklega að vera kornung vön því að vera sjálfs mín herra, og flytja svo í frekar litla saggakennda kytru, og setjast á skólabekk, með miklu yngri krökkum,“ segir Svanhildur sem kynntist meðal annars manni sínum þar úti.

„Hann var arkitekt úti í Kantaraborg, og kynntumst við á Ástarbrautinni, Love Lane, þar sem hann bjó en ég bjó í næstu götu.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .