Rekstrartekjur Orkuveitu Reykjavíkur námu 23,2 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins og jukust um rúm 7% frá fyrra ári. Í tilkynningu frá Orkuveitunni segir að aukin umsvif í samfélaginu, fjöldi nýbygginga og kalt tíðarfar valdi því að fyrstu sex mánuði ársins hafi tekjur Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga aukist um 1.550 milljónir króna miðað við sama tímabil 2017. Þetta hafi gerst þrátt fyrir lækkun á gjaldskrám Veitna fyrir kalt vatn og rafmagnsdreifingu í upphafi árs.

Rekstrarhagnaður var 9,9 milljarðar, 12% hærri en á fyrri helmingi síðasta árs.

Hagnaður var hinsvegar 43% lægri en á sama tímabili í fyrra, eða 4,2 milljarðar, en lægra álverð er sagt meginástæðan. „Framlegð og afkoma reksturs OR og dótturfélaganna voru betri á fyrri hluta ársins 2018 en 2017. Reiknaðar stærðir, sem áhrif hafa á heildarafkomu, voru hinsvegar óhagfelldari. Þar ræður lægra álverð í lok uppgjörstímabilsins mestu.“

„Rekstur og fjárhagur OR stendur traustum fótum. Því horfum við nú langt fram á veginn og hugum að uppbyggingu veitukerfa og þeirri þjónustu sem fólk vill njóta í framtíðinni. Í vor ræddum við fráveitumálin á ársfundinum okkar, aukna sjálfvirkni í þjónustu og það mikilvæga umhverfisverkefni sem orkuskipti í samgöngum eru. Nú blasir við að kortleggja þessa vegferð skref fyrir skref.“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.