*

sunnudagur, 22. apríl 2018
Innlent 16. mars 2017 10:10

Lægri velta í útflutningsgreinum

Minni velta var í útflutnings- og öðrum greinum háðum gengi erlendra gjaldmiðla, en mikil aukning í greinum tengdum ferðaþjónustu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Í mörgum greinum þar sem tekjur eru háðar gengi erlendra gjaldmiðla lækkaði velta milli áranna 2015 og 2016.

Lækkaði hún sínu mest í flokki hagstofunnar fyrir fyrirtæki í framleiðslu málma, eða um 21%, fiskveiðum, fiskeldi og vinnslu sjávarafurða, eða um 12%, og heild og umboðssölu með fisk, eða um 10%. Einnig lækkaði velta í veitustarfsemi og olíuverslun að því er segir í frétt Hagstofunnar.

Hins vegar jókst veltan í greinum tengdum ferðaþjónustu, til að mynda jókst hún í flokki sem ber yfirskriftina: rekstur gististaða og veitingarekstur, um 27% milli áranna.

Sömuleiðis jókst velta í greinunum, byggingarstarfsemi, mannvirkjagerð námugreftri og vinnslu jarðefna, eða um 36% og í sölu og viðhaldi á vélknúnum ökutækjum, eða um 20%, en báðir flokkarnir eru mjög líklega undir áhrifum á miklum vexti í ferðaþjónustu.

Í ársbyrjun ársins 2016 urðu nokkrar atvinnugreinar virðisaukaskattskyldar sem áður voru undanþegnar, til að mynda farþegaflutninga aðra en áætlunarflutninga og þjónustu ferðaskrifstofa, sem skýrir að hluta þá miklu aukningu á virðisaukaskattskyldri veltu í þessum greinum, á sama tíma og umsvif þessara atvinnugreina hefur aukist mikið.

Veltan í virðisaukaskattskyldri starfsemi fyrir utan ferðaskrifstofur og farþegaflutninga á vegum, jókst í nóvember og desember 2016 frá sama tíma ári fyrr um 0,3% eða 695 milljarða króna, en ef þannig er horft á árið í heild nam aukningin 4,1% samanborið við árið 2015.

Heildarveltan í allri virðisaukaskattskyldri starfsemi nam 712 milljörðum króna í nóvember og desember 2016.