„Ég held að það sé ákveðin óskhyggja að vera með lága vexti á sama tíma og við erum með svona kröftugan hagvöxt og mikla aukningu í eftirspurn. Það fer ekki saman. Það er bara þannig. En þegar maður lítur til lengri tíma og horfir á hagvaxtarspár þar sem við förum inn í eðlilegra ástand með 2,5-3% hagvöxt á ári, þá held ég að vextir eigi eftir að lækka hérna. Það held ég að sé engin spurning.“

Þetta sagði Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík og efnahagsráðgjafi Gamma Capital Management, í viðtali á Sprengisandi í morgun. Ræddi hann þar meðal annars frjálst flæði fjármagns, krónuna, efnahagsástandið, skatta og vaxtastigið í landinu.

Friðrik Már segir vexti hafa lækkað mikið á Íslandi undanfarið, sem sé jákvætt í sögulegu samhengi. Þó séu vextir ennþá hærri en í nágrannalöndunum.

„Það helgast meðal annars af krónunni og líka af því að því efnahagsástandi sem er hérna. Það er hin hliðin af krónunni; hún að einhverju leyti hjálpar okkur að takast á við bæði niðursveifluna sem varð í kjölfar hrunsins en líka uppsveifluna sem hefur orðið á undanförnum árum. Land sem er með 7% hagvöxt eins og var á Íslandi á síðasta ári þarf miklu hærri vexti en eru annars staðar. Ég veit ekki alveg hvar hagkerfið væri ef við værum með sömu vexti og á evrusvæðinu eða í okkar viðskiptalöndum, þar sem þeir eru við núllið eða neikvæður,“ segir Friðrik Már, sem vísar þar til þess að hærri vextir haldi aftur af ofþenslu.

„Ég held held líka að við verðum alltaf með svolítið áhættuálag á krónuna og landið. Á meðan svo er, sér í lagi þetta gengisálag, þá sitjum við uppi með hærri vexti. Það er ekki kostnaður fyrir landið sem slíkt nema að einhverju litlu leyti. Þetta er fyrst og fremst spurning um tekjuskiptingu milli þeirra sem skulda og þeirra sem eiga.“