Matvöruverslunin Iceland var oftast með lægsta verðið í verðkönnun ASÍ í átta lágvöruverðsverslunum og stórmörkuðum á þriðjudag. Jóhannes Jónsson, löngum kenndur við Bónus, opnaði verslunin í lok síðasta mánaðar í félagi við Malcolm Walker, stofnanda Iceland-keðjunnar í Bretlandi. Verslanir Kosts og Víðis eru ekki þátttakendur í verðkönnun ASÍ en verðlagseftirlitinu var neitað að taka niður verð í verslununum.

Í könnun ASÍ kemur fram að af þeim 96 vörutegundum sem skoðaðar voru var Iceland með lægsta verðið á 45 tegundum. Bónus, sem Jóhannes stofnaði á sínum tíma, kom þar á eftir með lægsta verðið á 24 tegundum.  Samkaup-Úrval í Hafnarfirði var  oftast með hæsta verðið eða á 58 tegundum af 96. Nóatún kom þar á eftir með hæsta verðið á 19 vörutegundum.

Flestar vörutegundirnar voru til í Fjarðarkaupum eða 93 af 96 og Samkaup-Úrval átti 92 tegundir. Minnsta úrvalið var hins vegar hjá Bónus sem átti 77 af 96 vörutegundum sem skoðaðar voru, Iceland átti 78 og Krónan 79.

Verðkönnun ASÍ