*

laugardagur, 25. maí 2019
Innlent 22. október 2018 13:29

Lægstu laun hækki um 90%

Úborgað tímakaup lægstu launa hækkar úr 1.243 krónum í 2.942 krónur verði farið að kröfum Starfgreinasambandsins.

Ingvar Haraldsson
Drífa Snædal, formaður Starfsgreinasamband Íslands og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, við upphaf fyrsta samningafundar félaganna á þriðjudaginn.
Haraldur Guðjónsson

Kröfur Starfsgreinasambands Íslands (SGS) og VR fyrir komandi kjaraviðræður fela í sér að útborguð laun þeirra sem eru á lægstu laununum hækki um 90% á næstu þremur árum. VR og SGS gera bæði kröfu um að lægstu laun verði 425 þúsund krónu á mánuði árið 2021 og að persónuafsláttur verði hækkaður svo að lægstu laun verði skattfrjáls. Á móti verði fjármagnstekjuskattur og skattar á hærri launatekjur hækkaðir.

Kjaraviðræður SGS og Samtaka atvinnulífsins hófust formlega á þriðjudaginn. „Það hefur sennilega aldrei verið eins mikið félagsstarf innan félaga SGS og núna. Það hafa kannski aldrei fleiri komið að undirbúningi félaganna þannig að þessi kröfugerð er beint úr grasrótinni. Þannig að menn skulu ekki halda að það hafi bara einhverjir örfáir aðilar búið þetta til,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður SGS. „Fólk vill geta lifað af dagvinnulaunum sem núna eru of lág miðað við þau framfærsluviðmið sem að eru í gangi. Þetta er niðurstaðan úr þessu grasrótarstarfi,“ segir hann.

Í dag nema lægstu laun innan SGS 267 þúsund krónum á mánuði en hjá VR í 270 þúsund krónum á mánuði en hækka í 300 þúsund krónur eftir 6 mánaða starf. SGS fer fram á að vinnuvikan verði 32 klukkustundir og VR að vinnuvikan verði 35 klukkustundir og að laun allra félagsmanna hækki um 42 þúsund krónur á ári næstu þrjú árin. Jafnframt fer SGS fram á að vaktavinna verði 80% af fullri vinnuviku en greitt verði til samræmis við fulla vinnuviku.

Lægsta tímakaup verði 2.690 krónur Kröfur VR og SGS fela því í sér að útborguð laun þeirra sem eru á lægstu laununum verði 408 þúsund krónur á mánuði að frádregnum 4% lögbundinni greiðslu launþega í lífeyrissjóð. Til þess að hafa sambærileg útborguð laun í dag þarf launþegi að fá 581 þúsund krónur á mánuði fyrir skatt. Sé miðað við 32 stunda vinnuviku hækkar tímakaup lægstu launa innan SGS árð 2021 í 2.942 þúsund krónur á klukkustund, sem er 137% hækkun. Í tilfelli VR myndi útborgað tímakaup hækka í 2.690 krónur á klukkustund eða um 112%.

Tilbúin í verkföll

Það er alveg klárt að fólkið sem bjó til kröfurnar er alveg tilbúið að fylgja þeim eftir,“ segir Björn spurður hvort hann eigi von á verkföllum í komandi kjaraviðræðum. „Auðvitað vonum við að það þurfi ekki að fylgja þeim eftir og við náum samkomulagi en ég á alveg eins von á því miðað við viðbrögðin að það gæti komið til víðtækra verkfalla í vetur,“ segir Björn. „Það er talað um að það sé góðæri í landinu. Við skulum ekki gleyma því að kjararáð var með góðar hækkanir handa æðstu embættismönnum landsins. Svo höfum við verið að sjá ýmsa forstjóra frá mánaðarhækkun launa, sem nemur tvöföldum, þreföldum, eða jafnvel fjórföldum verkamannalaunum og ekki hafa menn talið að það sprengdi allt kerfið.“

Félagsmönnum SGS svíði þessar hækkanir. „Þeir puða 173 tíma í dagvinnu á mánuði til þess að ná kannski 300 þúsund krónum meðan hinir fá kannski tvö- eða þrefalda hækkun, ég er ekki að segja að þeir vinni ekki fyrir því en þetta er óeðlilega mikil hækkun og ætla svo að halda því fram að allt fari til fjandans ef að aðrir fái hækkun. Það er hreinn tvískinnungur í þessu.“ Í kröfugerðunum er einnig farið fram á að vextir verði lækkaðir, verðtrygging verði bönnuð og að farið verði í átak í húsnæðismálum. Þá er einnig lögð áhersla á að dregið verði úr skerðingum í bótakerfinu, og bætur hækki.

„Húsnæðismálin eru bara í ólestri hjá okkur á Íslandi og við erum með mjög ríka kröfu á ríkið að taka á því máli. Eitt prósentustig í lækkun vaxta myndi nú ekki hafa nein smááhrif á heimilin í landinu. Ef að við værum með sömu húsnæðisvexti hér og í öðrum löndum held ég að við værum að tala um annað umhverfi,“ segir Björn.

Kröfurnar gangi ekki upp

„Ég sé engan veginn hvernig þetta gæti gengið upp,“ segir Konráð Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, um kröfur félaganna. Í mörgum tilfellum sé um illsamrýmanleg markmið að ræða í kröfugerðunum. Ef launahækkanir valdi því að verðbólga aukist muni Seðlabankinn að öllum líkindum bregðast við með vaxtahækkun. „Þess vegna kemur svo spánskt fyrir sjónir að kalla eftir vaxtalækkunum á sama tíma,“ segir Konráð. Alls eru 92 þúsund félagsmenn innan VR og SGS, og mynda félögin því mjög stóran hluta íslensks vinnumarkaðar. „Það sem maður óttast að þetta sé það stór hópur að það smitist yfir í allt annað,“ segir Konráð. Konráð bendir jafnframt á að krafa annarra verkalýðsfélaga sé að menntun sé metin til launa sem stangist að einhverju leiti á við kröfu um hækkun lægstu launa. „Maður veit ekki hvort að þeir sætti sig við að fjárhagslegur ávinningur háskólamenntunar minnki enn frekar því að hann hefur minnkað um helming á síðustu tíu árum,“ segir Konráð.

Takmarkað svigrúm hjá ríkinu

Konráð bendir á að miðað vð við fjárlagafrumvarp næsta árs sé ekki útlit fyrir að ríkissjóður megi við verulegri útgjaldaaukningu eða skattalækkunum án þess að það komi niður á afkomunni. Afgangur af fjárlögum á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður 29 milljarðar króna. „Það þarf ekkert rosalega mikið út af að bregða til þess að ríkissjóður sé kominn í hallarekstur. Það er ekki mikið til skiptanna þar.“ Þá þurfi að sækja féð annað.

„Á að sækja ennþá meira til þeirra sem hafa hærri tekjur, ætlarðu að hækka virðisaukaskatt, eða sækja þetta til fyrirtækja þegar afkoma þeirra er að versna almennt séð? Þannig að þetta er mynd sem maður sér ekki að gangi upp,“ segir hann.

Hefur áhyggjur af uppsögnum

Konráð segir að verulegar launahækkanir gætu einnig leitt til uppsagna, takist ekki að koma þeim út í verðlag, sem sé jafnvel verra en aukin verðbólga. „Ef aukinn launakostnaður birtist ekki í verðbólgu þannig að fyrirtæki hækki verð þýðir það að einhver fyrirtæki muni leggja upp laupana eða þurfa segja upp starfsfólki. Ekki öll, en ef rekstur fyrirtækja er skoðaður t.d. út frá gögnum frá Hagstofunnar, þá sést að það er ekki svigrúm til þess að auka launakostnað um 20% á ári. Fyrirtækin eru ekki með hagnaðarhlutfall sem er nálægt því að standa undir því,“ segir hann.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim