Matsfyrirtækið Fitch hefur nú lækkað lánshæfismat Sádi-Arabíu úr AA- niður í A+. Efnahagshorfur félagsins eru einnig svartsýnni en áður, enda gæti viðvarandi lágt olíuverð haft afdrifaríkar afleiðingar á þjóðarbúskapinn og þar með ríkisfjármálin.

Samkvæmt fjármálaráðuneyti Sádi-Arabíu var þess vænt að lánshæfismatið myndi lækka. Ráðuneytið telur engar ástæður til að hafa miklar áhyggjur, enda séu stoðirnar sterkar.

Sádi-Arabía er talsvert háð olíuiðnaðinum, en rúmlega 60% af tekjum ríkissjóðs má rekja til olíuvinnslu. Hið opinbera hefur þó byrjað að ráðast í frekari aðgerðir til þess að skapa fjölbreyttari efnahag.

Erfitt er að sjá fyrir hversu langan tíma það gæti tekið að sjá uppskeru þeirra fjárfestinga sem ráðist hefur verið í og mun olía því halda áfram að skipta umfangsmiklu máli um ókomna tíð.