Íslenska krónan hefur styrkst gagnvart flestum gjaldmiðlum síðustu misseri ásamt því að nokkur stöðugleiki er kominn á með tilkomu fljótandi gengisviðskipta með íslensku krónuna.  Þessi þróun hefur ekki síst verið gagnvart dollaranum, innkaupagjaldmiðli Lindex, sem gefur möguleika til þessara breytinga nú.  Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Lindex á Íslandi.

Í tilkynningunni er haft eftir Lóu Dagbjörtu Kristjánsdóttur, umboðsaðila Lindex á Íslandi: „Undanfarnar vikur hefur verið skoðað  sérstaklega áhrif þess að krónan var sett á flot í fyrsta sinn í tæp tíu ár.  Í ljósi þessara breytinga er sérlega skemmtilegt að geta skilað þessari búbót til okkar viðskiptavina.  Við munum nú, sem endranær, kappkosta að bjóða okkar vörur á sem hagkvæmasta verði og leitum stöðugt leiða til að ná því fram,“ segir hún.

Nú undirbúa verslanir á Íslandi sig í óða önn undir komu H&M til Íslands. Í samtali við Viðskiptablaðið seint á síðasta ári sagði Lóa Dagbjört, annar eigenda Lindex á Íslandi eftirfarandi um komu H&M til Íslands: „Það hafa verið fréttir um yfirvofandi komu H&M á hverju einasta ári síðan við byrjuðum en eftir að þetta fékkst staðfest hjá Smáralind má kannski segja að það hafi vaknað blendnar tilfinningar, þó ekki endilega neikvæðar tilfinningar. Við töluðum í kjölfarið við okkar fólk erlendis sem er í samkeppni við H&M alls staðar. Þeim fannst þetta í raun ekkert tiltökumál enda má segja að umgjörð fyrirtækisins sé að einhverju leyti hönnuð með samkeppni við H&M í huga. Það er vissulega um stóran samkeppnisaðila að ræða en það má ekki gleyma því að þeir eru nú þegar okkar stærsti samkeppnisaðili án þess að vera með verslun á landinu. Við erum í raun bara frekar spennt enda heldur svona samkeppni manni á tánum og neyðir mann til að horfa inn á við og meta hvort það sé eitthvað sem við getum gert betur.“