Stærstu heildsalar og matvælaframleiðendur Íslands undirbúa sig nú fyrir komu Costco til landsins. Ölgerðin og SS vinna nú að samningum við erlenda birgja um lækkun á innlaupsverði á ákveðnum vörum til heildsölu. Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins.

Í fréttinni er einnig rætt við Árna Pétur Jónsson, forstjóra 10-11, sem segir að það gæti farið svo að fyrirtækið komi til með að kaupa vörur frá Costco til endursölu í verslunum sínum. Hann segir jafnframt að þeir sem ekki óttast þennan keppinaut, séu að vanmeta hann stórkostlega.

Haft er eftir sérfræðingum á sviði verslunar og stjórnendur fyrirtækja í heildsölu, sem ekki vildu láta nafns síns getið, segja að innreið Costco á Íslandi, muni hafa mikil áhrif. Tekið er fram að veitingahús, kjörbúðir og stórmarkaðir geti leitað til Costco eftir vörum til endursölu og geti því farið fram hjá innflutningsfyrirtækjum.

Steinþór Skúlason, forstjóri SS, segir að fyrirtækið væri að vinna að nýjum samningum við erlenda birgja sem komi til með að leiða til verðlækkunar. SS flytur meðal annars inn vörur frá smásölufyrirtækjunum Mars, Snickers, Twix ásamt því að flytja inn vörur frá Barilla, McCormick og Uncle Ben's.

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, telur að innkoma Costco komi til með að hafa jákvæð áhrif á samkeppni hér á Íslandi. Hann bendir á að þetta brýni fyrirtækið til að ná enn betri innkaupum hjá sínum birgjum og að það sé ljóst að Costco bjóði umm á mjög flott verð og að í sumum tilfellum geti Ölgerðin ekki keppt við þá. Í öðrum tilfellum, segir Andri Þór, að þetta leiði til þess að þau munu ná betri verðum.