Talsverðar lækkanir hafa átt sér stað á hlutabréfum í Kauphöllinni það sem af er degi. Hlutabréf í Icelandair hafa lækkað um 2,3% það sem af er degi í 508 milljóna króna viðskiptum.

Hlutabréf í Högum hafa lækkað um 2,22% í tæplega 50 milljóna króna viðskiptum og hlutabréf í Eimskipi hafa lækkað um 1,68%. Öll hlutabréf á markaði hafa lækkað nema hlutabréf í Símanum, sem hafa hækkað um 0,66%. Alls er úrvalsvísitalan neikvæð um 0,65%.

Mögulegt er að lækkunin á markaði tengist frumvarpi um afnám gjaldeyrishafta sem lagt var fyrir eftir lokun markaða á föstudag og afgreitt um helgina. Það er ekki einungis hlutabréfamarkaður sem virðist hafa brugðist við, en ávöxtunarkrafa á bæði verðtryggðum og óverðtryggðum skuldabréfum hefur í flestum tilfellum hækkað umtalsvert það sem af er degi.