Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hefur lækkað um 2,87% það sem af er degi. Mest lækkar gengi bréfa Icelandair Group, eða um 3,19%, og er gengið komið niður í 34,85 krónur á hlut. Til samanburðar var verð á hvern hlut Icelandair 38,9 krónur á fimmtudag í síðustu viku, en á örfáum dögum hefur verð bréfanna lækkað um rúm 10,5%.

Viðmælendur Viðskiptablaðsins segja að lækkanir dagsins í dag séu eftirköst eða afleiðingar föstudagsins, en eins og blaðið fjallaði um þá hefur ekki verið svo mikil lækkun á einum degi í heil sex ár . Þá hafi verið meiri gírun í markaðnum en talið hafi verið áður.

Hvað varðar tilfelli Icelandair Group þá telja viðmælendur blaðsins að ástæða lækkunarinnar sé tvíþætt. Í fyrsta lagi hafi væntingar fjárfesta gagnvart fyrirtækinu verið meiri en fyrirtækið hafi verið fært um að skila af sér. Í öðru lagi séu helstu eigendur hlutabréfanna verðbréfasjóðir sem eiga auðvelt með að losa um hlut sinn í félaginu og eru kvikir í viðskiptum.