Stjórnvaldssekt Fjármálaeftirlitsins á Arctica Finance vegna kaupaukakerfis félagsins, sem sögð var brot á reglum, hefur verið lækkuð úr upphaflega 72 milljónum króna í 24 milljónir.

Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur eftir að fyrirtækið höfðaði dómsmál gegn niðurstöðu eftirlitsstofnunarinnar, en félagið vildi fá sektargreiðslunni alfarið hnekkt á þeim forsendum að vafi hafi verið á túlkun reglnanna.

Á það var ekki fallist, en hins vegar þarf ríkið að endurgreiða fyrirtækinu 48 milljónir króna, auk dráttarvaxta, því sektirnar hafi ekki haft fullnægjandi lagastoð fyrr en með lagabreytingu árið 2015. Niðurstaða dómstólsins var að fyrirtækið hafi brotið gegn reglunum eftir það til ársins 2017.

Líkt og Viðskiptablaðið sagði frá vorið 2017 á brotið hafa falist í því að hafa greitt tilteknum starfsmönnum, sem jafnframt voru hluthafar í svonefndum B-, C- og D-flokkum kaupauka í formi arðs af þessum hlutum í fyrirtækinu, en það gerði fyrirtækið á árabilinu 2012 til 2017.