*

mánudagur, 19. nóvember 2018
Innlent 19. nóvember 2017 14:05

Lækkun skulda forgangsatriði

Framkvæmdastjóri SA segir að meginþorra fjár sem fá megi úr bankakerfinu eigi að nýta í niðurgreiðslu skulda.

Ísak Einar Rúnarsson
Haraldur Guðjónsson

Forgangsröðun í ríkisfjármálum á að vera áframhaldandi niðurgreiðsla skulda segir, Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Samtökin hafa gefið út gátlista til næstu ríkisstjórnar með fimm atriðum. Eitt af þeim er að hvika hvergi frá stefnu um niðurgreiðslu skulda ríkisins. Halldór Benjamín segir að vaxtagreiðslur ríkisins séu með því hæsta sem gerist innan OECD-ríkjanna og að sama skapi sé lítið svigrúm til að auka umsvif ríkisins.

Spurður að því hvort fjármunir sem geti komið í hlut ríkissjóðs við breytingu á eiginfjársamsetningu bankanna eigi að setja í skuldaniðurgreiðslu frekar en innviðauppbyggingu segir Halldór Benjamín: „Að meginstofni ætti að gera það. Í aðdraganda kosninga voru menn með digurbarkalegar yfirlýsingar um uppbyggingu innviða. Við höfum frekar viljað horfa til þess að halda áfram á þeirri leið að greiða niður skuldir. Það sést á alþjóðlegum samanburði að hlutfall vaxta og afborgana hjá okkur er það þriðja hæsta í heiminum á eftir Ítalíu og Portúgal. Við erum auðvitað ekki að tala gegn innviðauppbyggingu en menn þurfa að forgangsraða. Lífið er ekki svart og hvítt, galdrarnir gerast á gráa svæðinu og mikilvægt er að finna gott jafnvægi. Með því að borga niður skuldir í dag sköpum við aukið og sjálfbært svigrúm til lengri tíma,“ segir Halldór Benjamín.

Hröð niðurgreiðsla skulda getur verið dýr Segja má að skýrsla Samtaka iðnaðarins um uppsafnaða viðhalds­ þörf á innviðum hafi verið kveikjan að umræðu um breytta forgangsröðun í þágu innviðauppbyggingar en þar er uppsöfnuð viðhaldsþörf metin um 372 milljarðar króna. Þá skrifaði Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs, grein í Vísbendingu þar sem hún segir að hröð niðurgreiðsla skulda geti reynst dýr ef hún er á kostnað vannnýttra fjárfestingatækifæra en hún áætlar að vanfjárfesting ríkissjóðs hafi numið um 70 millj­ örðum króna á árunum 2010-2015. Kristrún segir í grein sinni að þegar teikn séu á lofti um að hægja sé á hagkerfinu. Því séu tækifæri fyrir stjórnvöld til að fjárfesta. Þau eigi að nýta gott efnahagsástand til að vinna upp vanfjárfestingu.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Kristrún að mikilvægt sé að ná jafnvægi í niðurgreiðslu skulda annars vegar og fjárfestingu hins vegar. Mikilvægt sé að sjónarmið í hvora áttina fyrir sig séu ekki of einstrengingsleg. Miðað við áætlanir og spár sé ljóst að efnahagsstaðan nú sé ólík þeirri sem var fyrir tveimur árum og umræðan þurfi að taka mið af því en Seðlabankinn uppfærði hagvaxtarspá sína fyrir árið 2017 frá 7,4% hagvexti niður í 3,7% í gær. Hún segir þó að fjármunir sem geti fengist við endurskipulagningu á efnahagsreikningi bankanna séu þensluhvetjandi og í því samhengi væri skynsamlegt að nýta stóran hluta þeirra í skuldaniðurgreiðslu. „Við höfum talað fyrir því að það eigi að greiða niður skuldir en stóra spurningin er sú hversu hratt það er gert og á kostnað hvers,“ segir Kristrún og bætir við að of hröð niðurgreiðsla skulda sé dýr ef það kostar að ekki sé ráðist í arðbær fjárfestingarverkefni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.