Félag atvinnurekenda tekur nýlega verðkönnun ASÍ til umfjöllunar á heimasíðu félagsins . Könnun, sem tók til matvöru í höfuðborgum Norðurlandanna, hefur vakið athygli enda er matarkarfan í Reykjavík 67% dýrari en í Helsinki, þar sem hún er ódýrust, og 40% dýrari en í Ósló, þar sem matarkarfan er næstdýrust. Félag atvinnurekenda bendir á að langflestar vörurnar í matarkörfunni sem samanburðurinn byggist á séu búvörur sem framleiddar séu á Íslandi og beri því gríðarháa tolla.

„Ekki kemur fram í könnun ASÍ hvert upprunaland varanna í körfunni er. Það liggur hins vegar ljóst fyrir að þeir ofurtollar, sem íslensk stjórnvöld leggja á innfluttar búvörur, stuðla jafnt að því að halda uppi verði á innflutningi og innlendri framleiðslu,“ segir í umfjölluninni þar sem jafnframt er birt samantekt á þeim tollum sem leggjast á búvörur í matarkörfunni við innflutning.

Að mati Félags atvinnurekenda er nú dauðafæri í tengslum við kjaraviðræður á almennum vinnumarkaði að taka tollvernd matvöru til endurskoðunar, til hagsbóta fyrir almenning á Íslandi. Lækkun og/eða afnám tolla á matvörum er ein skilvirkasta aðgerðin sem hægt er að grípa til í því skyni að lækka verð á nauðsynjum og bæta þannig kjör launafólks. Það skiptir nefnilega ekki síður máli hversu margar krónur fara úr buddu almennings en hversu margar koma í hana. FA hvetur Alþýðusambandið og aðildarfélög þess til að gera þá kröfu á hendur stjórnvöldum, í þágu félagsmanna sinna, að dregið verði úr tollvernd á matvörum. Hin nýja könnun sambandsins er þarft innlegg í umræður um kjör launafólks,“ segir að endingu í umfjölluninni