*

sunnudagur, 26. maí 2019
Fólk 2. desember 2018 19:01

Lærði að vinna í Ólafsvík

Gunnar Sigurðarson er nýr viðskiptastjóri á framleiðslusviði Samtaka iðnaðarins.

Sveinn Ólafur Melsted
Haraldur Guðjónsson

Nýr viðskiptastjóri á framleiðslusviði Samtaka iðnaðarins, Gunnar Sigurðarson, er landsmönnum góðkunnur og hefur hann meðal annars starfað við dagskrárgerð og fréttamennsku hjá bæði RÚV og Stöð 2. Að sögn Gunnars leggst nýja starfið virkilega vel í hann.

„Ég hóf störf hér um miðjan mánuð en mér líður eins og ég sé búinn að vera hérna lengur en það þar sem ég setti mig vel inn í starfið áður en ég hóf formlega störf. Þannig að mér líður svolítið eins og ég hafi verið starfsmaður samtakanna mun lengur en raun ber vitni.

Á fyrsta deginum mínum hér fór ég beint í það að gefa samstarfsmönnum mínum fimmu og lét eins og ég hafi verið starfsmaður í teyminu í marga mánuði," segir Gunnar og hlær.

Gunnar er giftur fjögurra barna faðir og segir að hann verji frítíma sínum að mestu leyti í faðmi fjölskyldunnar.

„Ég einbeiti mér mest að fjölskyldunni og áhugamál mín snúast að mestu leyti í kringum hana. Ég les svolítið og hef einnig áhuga á knattspyrnu, þó í öðru formi en flestir aðrir. Áhugi minn á fótbolta er kominn yfir í annað form en að horfa á leiki. Sá áhugi felst í því að skoða menningu og borgir í Englandi, því enska deildin er eina deildin erlendis sem ég fylgist eitthvað með. Það er meiri heimspeki í kringum fótbolta en bara þær 90 mínútur sem leikurinn er spilaður. Ég tel mig vera búinn með mjög mikið af mínum kvóta af 90 mínútna fótboltaleikjum í gegnum ævina."

Þennan áhuga Gunnars á umhverfi fótboltans mátti  greina í þáttum hans Gunnar á Völlum, en þá heimsótti Gunnar fjölmarga knattspyrnuvelli hér á landi og fangaði stemninguna á leikdegi.

„Þeir sem hafa farið á knattspyrnuleiki vita það að það man aldrei neinn eftir fótboltaleiknum sjálfum en hins vegar man maður eftir öllu ferðalaginu í kringum það að fara á fótboltaleik. Það að fara til borgarinnar, sjá völlinn, upplifa allt umstangið í kringum þennan viðburð og bragða á veitingunum sem eru í boði. Þessum atriðum man maður eftir en fótboltaleikurinn sjálfur er bara 90 mínútur og svo búinn. Maður man eftir félagsskapnum og öllu öðru en sjálfum fótboltaleiknum."

Gunnar bjó fyrstu ár ævi sinnar í Ólafsvík. Að sögn Gunnars hefur hann í gegnum tíðina nýtt flestöll tækifæri sem gefast til að heimsækja æskuslóðirnar.

„Þegar ég var krakki var ég mjög oft í heimsókn hjá skyldmennum sem eiga heima í Ólafsvík. Í Ólafsvík lærði ég að bretta upp ermar og vinna. Ég sótti mér menntun hér í Reykjavík og er þakklátur fyrir það en það var ekki síður mikilvægt að læra það hvernig skuli grípa til verka og vinna, sem er það sem Ólafsvíkin kenndi mér."

Stikkorð: SI Gunnar Sigurðarson
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim