Samkvæmt niðurstöðum PISA könnunarinnar árið 2015 hefur læsi íslenskra nemenda á náttúruvísindum hrakað mikið á síðastliðnum áratug. Læsi á stærðfræði hefur einnig hrakað stöðugt frá því að það var fyrst metið árið 2003. Lesskilningur íslenskra nemenda minnkaði frá 2000 til 2006 en hefur hann ekki lækkað marktækt.

Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, segir í formála ritsins um helstu niðurstöður PISA könnunarinnar að þróun á frammistöðu nemenda í lestri, stærðfræði og náttúrufræði valdi áhyggjum hér á landi og að árangur íslenskra nemenda hafi dalað mikið frá því að fyrstu mælingar hafa komu fram.

„Þetta er mikil breyting á stöðu íslenskra nemenda til hins verra og hefur hún aldrei verið verri í öllum þremur sviðum PISA, áberandi verri en á hinum Norðurlöndunum,“ segir í samantekt Menntamálastofnunnar á niðurstöðum úr PISA 2015.

Lesskilningur

Ísland er nú í neðsta sæti Norðurlanda í lesskilningi en var um miðjan hóp árið 2000. Lesskilningur hefur lækkað um sem nemur tæpu skólaári á þessum 15 árum. Ísland er neðarlega í hópi OECD ríkja í lesskilningi. Fjölgað hefur í lægri hæfnisþrepum og fækkað á efri getustigum.

Árið 2015 eiga 22% nemenda erfitt með að lesa sér til gagns en voru 15% árið 2000. „Dreifing stúlkna á hæfniþrep lesskilnings er svipuð og í OECD löndum að meðaltali. Hærra hlutfall drengja er á lægri hæfniþrepum en í OECD löndunum almennt,“ segir meðal annars í samantekt Menntamálastofnunnar.

Læsi á stærðfræði

Stærðfræðilæsi við lok grunnskóla hjá íslenskum nemendum er lakara en í meirihluta OECD ríkjanna og lægra en á hinum Norðurlöndunum. Stærðfræðilæsi hér á landi hefur látið undan síga frá PISA fyrirlögninni 2003 þegar megináhersla var á mælingu stærðfræðilæsis í fyrsta sinn hjá PISA.

„Sú lækkun nemur tæpu skólaári og birtist í fjölgun nemenda á lægri hæfniþrepum og fækkun í efri hæfniþrepum. Ekki varð þó marktæk lækkun á stærðfræðilæsi milli áranna 2012 og 2015. Kynjamunur er nú lítill sem enginn hér á landi sem rekja má til þess að stúlkur sýna nú lakari árangur en áður, fremur en að piltar hafi bætt sig. Höfuðborgarsvæðið er svipað meðaltali OECD en utan þess er stærðfræðilæsi mun lakara,“ segir í samantektinni.

Læsi á náttúruvísindi

Læsi á náttúruvísindi er minna hér á landi en á öðrum Norðurlöndum og gildir það jafnframt um alla undirþætti. Læsi á náttúruvísindi er nokkuð minna en það var árið 2006 þegar það var fyrst aðalviðfangsefni PISA. Mikill meirihluti OECD ríkja stendur betur að vígi en Ísland á þessu sviði.

Hægt er að kynna sér niðu rstöðurnar hér.