Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins hefur tilkynnt um að hún ætli að bjóða sig fram til embættisins í annað kjörtímabil. Kjörtímabilið hennar rennur út í júlí nk. en þá verður kosið um hver muni leiða sjóðinn næstu fimm árin.

Lagarde hefur fengið stuðning frá Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi, Hollandi og talið er líklegt að ríkin muni kjósa hana til áframhaldandi setu í stöðu framkvæmdastjóra. Hún hefur einnig fengið lof frá Bandaríkjunum en ekki formlegan stuðning.

Lagarde sætir nú rannsókn vegna aðildar hennar að bankaskandal sem gerðist áður en hún tók við stöðunni hjá AGS, en meðan hún var fjármálaráðherra Frakklands.

Lagarde vann öruggan sigur í kosningum til framkvæmdastjóra AGS árið 2011. Sigur hennar sætti þó gagnrýni á þeim grundvelli að sjóðurinn legði of mikla áherslu á Evrópu í aðgerðum sínum.