Christine Lagarde, yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, fær að halda vinnunni hjá AGS og sleppur við refsingu, þrátt fyrir að hafa verið fundin sem um vanrækslu af frönskum landsdómstóli. Brotið átti sér stað þegar hún sat í embætti fjármálaráðherra Frakklands árið 2008.

Stjórn AGS hefur lýst yfir fullu trausti til Lagarde. Stjórnin telur að Lagarde sé fullkomlega fær um að sitja yfir stofnuninni sem veitir meðal annars neyðarlán, þrátt fyrir að hafa verið sakfelld heima fyrir.

Vill horfa áfram veginn

Lagarde hefur sagt að hún komi ekki til með að áfrýja dómnum. Stjórnartíð hennar hjá AGS hefur verið lituð af þessu máli, en það hefur velkst um í frönskum dómstólum frá árinu 2011.

„Ég hef verið sakfelld fyrir vanrækslu, án þess að vera refsað, án þess að þurfa að greiða sekt,“ er haft eftir Lagarde í frétt Reuters um málið. „ég er ekki sátt, en nú er kominn upp sá tímapunktur að þessu máli linni. Nú er mikilvægt að halda áfram að vinna fyrir þá sem að treysta mér enn,“ sagði Lagarde einnig við blaðamenn.

Hafði í nógu að snúast vegna kreppunnar

Málið snýst um umdeildan sáttarsamning sem franska ríkið gerði við viðskiptajöfurinn Bernard Tapie upp á 400 milljónir evra. Einn af þeim dómurum sem fundu Lagarde seka, benti þó á að Lagarde hafi haft um nóg annað að hugsa á þessum tíma, en þá þurfti hún að kljást við efnahagskreppuna á árunum 2008 til 2009. Því þurfti hún hvorki að borga sekt né að sitja í fangelsi, en hámarksrefsingin fyrir brotið hefði varðað eins árs fangelsisvist.