Christine Lagarde, yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, mun þurfa að mæta fyrir dóm og svara til saka vegna meintrar vanrækslu í störfum sínum þegar hún var fjármálaráðherra Frakklands. Ákvörðun um þetta var tekin af sérstökum dómstól, Cour de Justice de la République (CJR), sem sér eingöngu um meint brot ráðherra og fyrrverandi ráðherra í starfi.

Málið snýst um bætur sem athafnamanninum Bernard Tapie voru ákvarðaðar af gerðardómi. Tapie hafði átt meirihluta hlutafjár í íþróttavöruframleiðandanum Adidas, sen seldi hlut sinn árið 1993 til að geta tekið sæti í ríkisstjórn Francois Mitterrand. Hann höfðaði mál gegn bankanum Credit Lyonnais, sem sá um söluna, og sakaði bankann um að hafa viljandi undirverðlagt Adidas.

Lagarde, sem eins og áður segir var fjármálaráðherra Frakklands árið 2008, vísaði málinu þá til þriggja manna gerðardóms sem ákvarðaði Tapie 404 milljóna evra bætur, en það samsvarar um 57 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins í dag. Segir í frétt BBC að rannsakendur gruni að hann hafi fengið sérmeðferð hjá stjórnvöldum gegn því að hann styddi Nicolas Sakozy, þáverandi forseta Frakklands.

Fyrr í þessum mánuði komst franskur dómstóll að því að Tapie hefði ekki átt neinn rétt á bótum og gerði honum að skila milljónunum 404 aftur með vöxtum. Lögmaður Lagarde segir ákvörðun CJR óskiljanlega og að hún yrði kærð til áfrýjunardómstóls.