Þótt Seðlabankinn þurfi að axla ábyrgð af háu vaxtastigi í landinu er ábyrgðin fyrst og fremst þjóðkjörinna fulltrúa sem bæði með lögum móta stefnu Seðlabankans og aðra áhrifavalda hás vaxtastigs í landinu að því er greiningardeild Arion banka segir í nýjustu greiningu sinni.

Þar segir jafnframt að ekki sé annað hægt að segja en Seðlabankanum hafi vel tekist til síðustu misseri þar sem verðbólga og væntingar um hana sé helsti mælikvarðinn á það en verðbólgan hafi iðulega verið innan vikmarka lögbundins verðbólgumarkmiðs.

Greiningardeildin fagnar því að ný ríkisstjórn hafi ákveðið að endurmeta peninga- og gjaldmiðlastefnu landsins, en benda jafnframt á að stjórnvöld hafi önnur spil á hendi vilji þau lækka fjármagnskostnað og vaxtastig í landinu.

Nefnir bankinn í því samhengi:

  • Endurskoðun á 3,5% raunvaxtamiði lífeyrissjóða
  • Lækkun sérstaks skatts á skuldir fjármálafyrirtækja
  • Leggja fjármagnstekjuskatt á raunvexti í stað nafnvaxta
  • Aðhald í rekstri og fjárfestingum ríkisins

Einnig veltir bankinn fyrir sér hvort bindiskylda á fjárfestingar útlendinga í skuldabréfum og innlánum hafi áhrif á vaxtastigið lengi tíma litið líkt og hún hafi haft áhrif á ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði.

Þó segja þeir einnig að langt sé frá því að lágt vaxtastig eigi að vera markmið í sjálfu sér, heldur eigi vextir að þjóna sama tilgangi og annað verð, þeir eigi að endurspegla stöðuna í hagkerfinu, það er jafnvægið milli framboðs og eftirspurnar.

Þess vegna sé nauðsynlegt að hafa þrennt í huga við endurskoðun peningastefnunnar því það geti verið hættulegt að stefna að lægra vaxtastigi sem markmiði í sjálfu sér ef staðan í hagkerfinu kalli á hærra vaxtastig:

  1. Raunvaxtastigið ræðst til lengri tíma aðallega af kröftum utan áhrifasviðs stjórnmálanna
  2. Stöðug og lítil verðbólga er lykilatriði til að ná nafnvaxtastigi niður
  3. Hærri raunvextir í uppgangi í hagkerfinu eru heilbrigðismerki

Gallar við lágt gengi er að ólífvænlegum fyrirtækjum er haldið of lengi á lífi sem og það dregur úr ávöxtun sparnaðar almennings.