Forseti Venesúela, fyrrum rútubílstjórinn Nicolas Maduro, hækkaði í gær lágmarkslaun í landinu um 50%, sem er fimmta hækkun þeirra á einu ári.

Þó hækkunin virðist mikil þá fellur hún í skuggann af gríðarlegum verðhækkunum sem gert hefur matvæli of dýr fyrir flesta íbúa landsins. Á árinu er búist við að verðbólgan fari í 1.660% og 2.880% á næsta ári, að því er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætlar.

Hélt forsetinn áfram upteknum hætti og hélt því fram að landið væri fórnarlamb efnahagslegs stríðs sem framkvæmt væri af óvinum sínum, að því er ríkisfréttamiðillinn AVN hélt fram.

Að undanförnu hafa efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar ollið sífellt meiri vandræðum, en í síðasta mánuði ákvað hún að prenta nýja seðla þar sem sá hæsti var 200 sinnum verðmætari en sá stærsti sem var í umferð þar á undan.

En peningaseðlarnir komu of seint og miklar biðraðir mynduðust fyrir utan banka.

Eftir nýjustu hækkun lágmarkslauna, sem kom í kjölfar annarrar sem nam 40% fyrir minna en þrem mánuðum, eru lágmarkslaunin nú 40.638 bólivarar á mánuði.

En miðað við núverandi óformlegt gengi jafngildir það einungis um 12,14 Bandaríkjadölum, eða sem nemur 1.400 krónum. Með matarseðlum hækka laun íbúa landsins í 104,358 bólivara, en flestir verkamenn í landinu þiggja slíka matvælaaðstoð.