*

sunnudagur, 20. janúar 2019
Innlent 27. febrúar 2008 19:57

Lagt til að Háskólasjúkrahús verði við Hringbraut

Ritstjórn

Heppilegasta staðsetning fyrir nýtt háskólasjúkrahús er við Hringbraut að mati nefndar á vegum heilbrigðisráðherra sem Inga Jóna Þórðardóttir hefur veitt forstöðu, en Alfreð Þorsteinsson var áður formaður hennar.

Ákveðið hefur verið að efna til hönnunarsamkeppni um nýja háskólasjúkrahúsið og er stefnt að því að niðurstaða fáist í henni síðla árs 2008. Samkeppnisgögnin eiga að liggja fyrir í júnímánuði og munu þau teymi sem valin verða í forvali fá samkeppnisgögnin afhent í júlí og hafa þá þrjá mánuði til að vinna tillögur sínar.

Þetta kom fram á kynningarfundum sem Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra og Inga Jóna Þórðardóttir formaður nefndar um fasteignir, nýbyggingar og aðstöðu heilbrigðisstofnana, héldu fyrr í dag. 

Á þriðja hundrað manns tóku þátt í umfangsmikilli þarfagreiningu á nýja háskólasjúkrahúsinu. Í framhaldi af þeirri vinnu var samið við arkitektastofuna C.F. Möller í Árósum í Danmörku um að skila frumáætlun/forhönnun verkefnisins og lýkur þeirri vinnu á næstu vikum.