Oddný Steina Valsdóttir formaður Landssamtaka sauðfjárbænda segir að umframframboð verði á lambakjöti í haust, en það stefnir í að framleiðslan nái 1.300 tonnum. Segir hún bændur hafa orðið fyrir miklu tekjutapi vegna verðlækkunar á lambakjöti, og verði ekkert aðhafst hafi það alvarleg áhrif á byggð í dreifbýli um allt land að því er fram kemur á RÚV.

Oddný segir þó að hún sé bjartsýn á við atvinnuveganefnd Alþingis í dag þar sem ræða eigi stöðuna í sauðfjárrækt.

„Við erum með ákveðna áætlun um hvernig við getum unnið okkur út úr þessari stöðu,“ segir Oddný sem segir gengi krónunnar og lokunar markaða erlendis hafa dregið úr sölunni. „Þetta er ekki þannig að við höfum verið í einhverri óábyrgri offramleiðslu undanfarin ár. En það þarf að taka á þessu og við viljum gera það með heildstæðum hætti.“

Þarf að minnka greinina

Oddný segir að horfa verði einnig til annarra verkefna og taka heildstætt á vandanum svo það skili sér til framtíðar. „Við þurfum að minnka greinina miðað við þá markaði sem við höfum í dag.“ Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um þá hefur Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra talað fyrir afnámi framleiðslustyrkja.

Oddný segir framleiðsluferlanna mjög langa og bændur búna að leggja út kostnað fyrir framleiðslu haustsins 2018. „Núna í upphafi sláturtíðar erum við að horfa fram á svona 1.300 tonn,“ segir Oddný um þær birgðir af lambakjöti sem verða til í haust. „Kjötið þarf náttúrulega að nýta með einhverjum hætti og það er það sem við viljum ræða og finna lausn á.“