Fjárfestingarbanki Evrópu hefur gert samning við Isavia um að lána félaginu 100 milljónir evra eða sem nemur 12,5 milljörðum króna.

„Við hófum umsóknarferlið fyrir tveimur árum síðan. Þá lögðum við fram viðhaldið á brautunum, uppbygginguna sem hefur verið í kringum vegabréfaeftirlitið og nokkur fleiri verkefni sem við værum að horfa á. Þau verkefni eru í fullum gangi og fer að ljúka þannig að fjármagnið mun að stærstu leyti verða nýtt til uppbyggingar á tengibyggingu milli norður- og suðurbygginga flugstöðvarinnar. Sú bygging verður þó talsvert dýrari en sem nemur láninu og því má segja að þetta fjármagni fyrri hluta þeirrar framkvæmdar,“ segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia í samtali við Viðskiptablaðið. Í fréttatilkynningu segir jafnframt að fjármagnið muni einnig verða nýtt til endurnýjunar á farangursflokkurnarkerfi, endurbóta á flugbrautum, lagningu nýrra akbrauta og flýtiafreina.

Um er að ræða langtímalán en ákvæði í lánsamningnum kveða á um að Isavia getur ekki gefið upp nákvæman lánstíma. Isavia hefur heldur ekki gefið út kjörin á láninu en Björn Óli segir að þau séu mun betri en félagið fær venjulega. „Miðað við það sem við höfum verið að áætla er þetta um 8-10% af því sem við þurfum til að framkvæma okkar langtímaáætlanir,“ segir Björn Óli og bætir við að Isavia hyggist sækja frekari fjármögnun erlendis þó búast megi við að vextir af þeim verði hærri.

Björn Óli kveðst jafnframt vera afar ánægður með að Isavia hafi hlotið lán frá bankanum sem hann telur traustsyfirlýsingu bæði á félagið og á íslenskan efnahag. „Þetta er bara mjög gott, við erum komin í þennan flokk sem þau telja vera hæfan í innviðafjárfestingum í Evrópu og þess virði að fjárfesta í.“