Fjármálaráðherra hefur ákveðið að fela Seðlabanka Íslands útgáfu innlendra markaðsverðbréfa ríkissjóðs
sem Lánasýsla ríkisins annast nú, en bankinn annast nú þegar umsýslu erlendra lána ríkissjóðs. Samningurinn, sem undirritaður var í dag, tekur gildi frá 1. október næstkomandi. Lýkur þar með starfsemi Lánasýslu ríkisins en stofnunin verður síðan formlega lögð niður með lögum.


Í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á íslensku fjármálaumhverfi og á stöðu ríkisins á lánamarkaði er nú talið mögulegt að framkvæma lánaumsýslu ríkissjóðs með hagkvæmari hætti en verið hefur með því að flytja verkefni stofnunarinnar til Seðlabanka Íslands. Í Danmörku og Noregi sjá seðlabankar landanna um lánaumsýslu ríkissjóðs á grundvelli samninga milli fjármálaráðuneytis og þeirra.


Helstu kostir þess að hafa heildarumsjón lánamála ríkissjóðs á einum stað eru að með því fæst betri yfirsýn og skilvirkari lána-, gjaldeyris- og lausafjárstýring og hagræðing næst hvað varðar fastan kostnað og nýtingu starfsmanna. Þar sem eitt meginhlutverk Seðlabankans snýr að peningamálastjórnun, sem þarf ekki alltaf að fara saman við hagkvæma lánastýringu ríkissjóðs, er hins vegar gert ráð fyrir að í samningi við Seðlabankann um þau verkefni sem Lánasýslan hefur haft með höndum, verði skýrt kveðið á um verkskiptingu milli aðila og um ákvörðunarvald fjármálaráðuneytisins í lánamálum og endanlegt úrslitavald ráðuneytisins gagnvart framkvæmd samningsins.