Fasteignafjárfestingarfélagið Landmark Properties, sem er að hluta til í eigu Landsbanka Íslands, hefur samþykkt að kaupa óklárað skrifstofuhúsnæði í Búlgaríu fyrir 22 milljónir evra, eða 1,93 milljarða íslenskra króna, af búlgarska félaginu Industrial Commerce. Frá þessu var greint í SeeNews fréttastofunni.

Framkvæmdarstjóri Landmark Properties í Búlgaríu, Tanya Kosseva-Boshova, segir að Landmark hafi aðeins keypt þann hluta byggingarinnar sem fer undir skrifstofur, en jarðhæðin verði áfram í eigu seljendans. Landmark mun hafa keypt um 30 þúsund fermetra, en þar er meðtalið bílastæði.

Landmark á þegar þrjú skrifstofuhúsnæði og verslunarsvæði í Sófíu, sem og fasteignir víðar í Búlgaríu og Tyrklandi. Fyrirtækið vinnur einnig að verkefnum í Króatíu. Landmark Property Management, er í eigu hóps alþjóðlegra fjárfesta; Landsbankans, breska fjárfestingarsjóðnum Altima Partners og breska fyrirtækisins Gort Securities, sem er eigandi Radison SAS hótelsins í Sófíu.