Bankaráð Landsbankans hyggst leggja það til við aðalfund bankans 21. mars næstkomandi að auk hefðbundinnar arðgreiðslu sem nemur 78% af hagnaði ársins verði greidd viðbótararðgreiðsla.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá um miðjan síðasta mánuð nam hagnaður bankans á síðasta ári tæplega 20 milljörðum íslenskra króna, en þá var greint frá því að um 15,4 milljarðar af því verði greiddir í arð. Nú hefur stjórn bankans ákveðið að leggja til við aðalfundinn að til viðbótar verði greiddur út tæplega 9,5 milljarður til viðbótar sem sérstök arðgreiðsla sem komi til síðar á árinu.

Hefðbundna arðgreiðslan sem nemur 15.366 milljónum króna verður greidd út 28. mars. Ríkið er eigandi um 98,2% af hlutafé bankans en þar sem bankinn sjálfur á 1,5% af útgefnum hlutabréfum í bankanum rennur um 99,7% af arðgreiðslunum til ríkisins.

Hlutur ríkisins er því um 15.319 milljónir af upphaflega áætlaðri arðgreiðslu. Sérstaka arðgreiðslan yrði samkvæmt tillögunni hins vegar ekki greidd út fyrr en 19. september næstkomandi en af þeim 9.456 milljónum króna sem þá verða greidd út renna um 9.427 milljónir til ríkisins.

Heildararðgreiðslan sem bankinn greiðir út í ár nemur því um 24.822 milljónum, en þar af mun um það bil 24.745 milljónir renna til ríkisins. Upphaflega arðgreiðslan nemur 0,65 krónum á hlut en viðbótararðgreiðslan 0,4 krónum á hlut. Fjöldi hlutabréfa í bankanum sem eru í eigu ríkisins eru  23.567.013.778 . Þetta kemur fram á vef Landsbankans .