Hömlur, dótturfélag Landsbankans, seldi nýverið Setbergslandið í Garðabæ til Byggingafélags Gylfa og Gunnars (BYGG) fyrir 1.025 milljónir króna. Kemur þetta fram í Morgunblaðinu í dag.

„Á undanförnum misserum höfum við verið að fá einhver tilboð í Setbergslandið sem hafa svo ekki gengið eftir vegna einhverra fyrirvara, svo sem varðandi fjármögnun. Landið hefur einnig verið í sölu hja fimm fasteignasölum frá því í maí í fyrra,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans í samtali við Morgunblaðið. Segir hann að um opið og gagnsætt söluferli hafi verið að ræða.

Ásett verð Setbergslandsins var 1.350 milljónir króna. Steinþór telur hins vegar ekki að Hömlur hafi fengið of lágt verð fyrir landið. „Það er ekkert í hendi með skipulag á Setbergslandinu. Við erum búin að vera með þessa fullnustueign til sölu afar lengi. Eigum við að vera með okkar bækur fullar af vangaveltum um það hvað skipulagsyfirvöld munu hugsanlega gera einhvern tímann eða hvenær?“