Hagfræðideild Landsbankans spáir 0,3% hækkun vísitölu neysluverðs milli mánaða í september sem þýðir að ársverðbólgan hækki úr 2,6% í 2,8%. Er spá bankans nú 0,1 prósentustigi hærri en í ágúst. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær spáir greiningardeild Arion banka nokkuð hærri verðbólgu í lok árs, eða 3,5%.

Í ágúst hækkaði vísitala neysluverðs um 0,2% sem var undir væntingum en opinberar spár lágu á bilinu 0,3% til 0,4% að því er bankinn fer yfir í verðbólguspá sinni. Segir hagfræðideildin að helstu áhrifaþættir milli mánaða nú í september séu árstíðarbundin lækkun flugfargjalda til útlanda, sem verði í ríflegri kantinum vegna fjölda tilboða.

Hækkun á mat og drykk verður þónokkur, og vísar bankinn þar í ákvörðun verðlagsnefndar búvara í lok ágúst sem leiddi til um 5% hækkunar á verðskrá Mjólkursamsölunnar. Mjólkurvörur vega um fimmtung af verði undirflokksins matur og drykkur.

Föt og skór hækka einnig vegna útsöluloka, sem og húsgögn og heimilisbúnaður og vísar bankinn þar í 4% meðaltalshækkun verðlags sem IKEA tilkynnti um í byrjun mánaðarins.

Jafnframt hækkar kostnaður við tómstundir og menningu, sem gerist alla jafna í september, þá bæði vegna hækkana á raftækjum vegna útsöluloka og á ýmis konar námskeiðum og íþróttum samhliða nýju skólaári.