Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir því að peningastefnunefnd lækki stýrivexti um 0,25 prósentur á næsta vaxtaákvörðunarfundi. Næsta vaxtaákvörðun verður tilkynnt 17. maí næstkomandi. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

Bent er á að óvissan í kringum vaxtaákvörðunina sé meiri en oft áður og helgast það af því að nú verða gefin út Peningamál með nýrri þjóðhags- og verðbólguspá. Nefndin mum því styðjast við nýja spá sem kann að breyta nokkuð þeim forsendum sem hún hefur haft til að styðjast við í síðustu þremur ákvörðunum. Hagfræðideildin telur að nefndin muni einkum íhuga óbreytta vexti eða lækkun upp á 0,25 til 0,5 prósentur.

Landsbankinn telur einnig líklegt að verðbólguspáferillinn sem birtist í Peningamálum nú í maí verði lægri en ferillinn í febrúarheft Peningamála.

„Ástæða þeirrar breytingar er styrking krónunnar milli þessara tímapunkta. Verð á evru er nú 4,9% lægra gagnvart krónu en þegar síðustu Peningamál voru birt og gengisvísitalan er 5,9% lægri. Í síðustu peningamálum var því spáð að meðalgengi krónunnar yrði 162,6 stig á þessu ári. Frá áramótum hefur meðaltalið verið 161,2 stig en 159,5 stig sé horft á meðaltalið frá síðustu peningamálum og var gildi vísitölunnar 156 stig nú á föstudag. Verðbólga var 1,8% á fyrsta ársfjórðungi en spáin frá í febrúar gerði ráð fyrir 1,9% verðbólgu. Febrúarspáin fyrir verðbólgu á öðrum fjórðungi hljóðar upp á 2%. Við teljum líklegra að verðbólgan verði frekar undir 2% en yfir 2% og að Seðlabankinn kunni því að vanmeta örlítið verðbólguna á öðrum fjórðungi,“ kemur fram í spánni.