Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður starfshóps um alþjónustu í fjarskiptum, vonast til þess að ljósleiðari verði kominn á 99 prósent íslenskra heimila innan fjögurra ára „þannig að um árslok 2019 eða ársbyrjun 2020 eigum við mjög gott fjarskiptakerfi á Íslandi og öflugt, með um það bil 99,9 prósenta útbreiðslu," segir hann í samtali við fréttastofu RÚV .

Slíkt er einnig í samræmi við ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í nýársávarpi sínu þar sem hann sagðist vona að á þessu ári yrði hafin vinna við að tengja landsbyggðina við ljósleiðaranetið í auknum mæli.

Haraldur vonast til þess að tenging ljósleiðara í dreifbýli muni bæta búsetuskilyrði þar.

Píratar í sama vagninum

Píratar lögðu fram þingsályktunartillögu í september vegna þess sem þeir sögðu ójöfnuð sem fælist í því að nettengingar væru misgóðar eftir því hvar fólk byggi á landinu.

„Af því leiðir að fjöldi fólks býr við skert lífsgæði, enda internetið orðið svo snar þáttur í daglegu lífi fólks hér á landi og um heim allan. Nauðsynlegt er að hið opinbera stigi inn og komi til móts við netveitur með það að markmiði að tryggja jafnræði allra landsmanna til netaðgangs. Í því skyni mætti virkja og styrkja betur ýmsa sjóði sem þegar eru fyrir hendi. Má hér nefna alþjónustusjóð, fjarskiptasjóð og jöfnunarsjóð sveitarfélaga," segir í tillögunni.