Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins spilar mögulegt samstarf ríkisstjórnarinnar við Hreyfinguna það sem eftir lifir kjörtímabilsins stórt hlutverk í því hvort draga skuli ákæru á hendur Geir H. Haarde til baka.

Sem kunnugt er hefur Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lagt fram tillögu þess efnis að Alþingi dragi til baka ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, en Geir situr nú fyrir Landsdómi. Umræða um tillöguna hefur staðið yfir á Alþingi í allan dag og er enn ólokið.

Í fréttaskýringu um málið sem birtist í Viðskiptablaðinu í gær kemur fram að tillagan verði að öllum líkindum felld. Þá kemur fram að eftir brotthvarf þingmanna úr stjórnarmeirihlutanum á síðasta ári og síðustu ráðherrabreytingarnar styðst ríkisstjórnin aðeins við eins manns meirihluta á Alþingi.

Fyrir áramót var þó þreifað á Hreyfingunni um óformlegt samstarf, sem fæli það helst í sér að Hreyfingin myndi veita ríkisstjórninni skjól í erfiðum málum sem kunna að koma upp á þinginu á næstu mánuðum. Þá telur ríkisstjórnin sig einnig eiga stuðning Guðmundar Steingrímssonar vísan í einstaka málum.

Ætli ríkisstjórnin sér að njóta stuðnings Hreyfingarinnar á næstu mánuðum er það algjört lykilatriði að Hreyfingin verði ekki „svikin“ í þessu máli og að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar standi sína plikt með því að fella tillögu Bjarna. Með þessu útspili í aðventunni er Hreyfingin í raun farin að spila lykilhlutverk í einstaka málum sem ekki hefur gerst áður frá kosningum vorið 2009.