Ásthildur Gunnarsdóttir hefur hafið störf hjá framleiðslufyrirtækinu Silent, en hún hefur haft umsjón með samskipta- og útgáfumálum Viðskiptaráðs síðustu fjögur árin

„Umfang verkefna Silent hefur aukist og því var talin þörf á manneskju á gólfinu sem hefði yfirsýn yfir öll verkefnin,“ segir Ásthildur, nýráðin framleiðslustjóri fyrirtækisins. „Þessa dagana er ég mest í því að eiga stundir með starfsfólkinu til að heyra hverjar þarfirnar eru og hvaða tæki og tól við ætlum að nýta til að skipuleggja okkur enn betur.“

Nóg er að gera hjá Ásthildi, því samhliða því að koma sér inn í nýtt starf er hún nú að klára fyrsta árið í MBA námi í HR en þess utan hefur hún verið landsliðsmaður í blaki frá árinu 2008.

„Ég spila blak með meistaraflokki Stjörnunnar en nú í apríl byrjar landsliðstímabilið,“ segir Ásthildur.

„Ég stefni að því að komast á smáþjóðaleikana fyrir hönd Íslands og svo við vorum að ná þeim merka áfanga síðasta vor að komast í fyrsta skipti í gegnum fyrstu undankeppni HM. Í lok maí munum við því mæta mörgum af sterkustu blakþjóðum heims í annarri umferð undankeppninnar í Póllandi.“

Ásthildur hóf ekki að spila blak fyrr en eftir tvítugt og þá fyrir tilstilli móður sinnar sem hefur spilað íþróttina lengi. „Ég var í fimleikum til rétt rúmlega tvítugs, en svo prófaði ég að vera ekki í neinni íþrótt heldur einbeita mér bara að háskólanáminu og hélt ég myndi nú bara brillera af því að hafa allan þennan tíma, en svo fór nú ekki,“ segir Ásthildur sem segir það henta sér betur að hafa þétta dagskrá svo hún þurfi að skipuleggja sig vel. „Síðar byrjaði ég að mæta með móður minni á öldungablaksæfingar, en þar spottaði mig þjálfari snemma svo ég byrjaði að mæta á meistaraflokksæfingar fljótlega upp úr því. Þegar ég fór síðan í meistaranám út til Danmerkur þá spilaði ég í efstu deildinni þar í þrjú ár meðfram skóla.“

Ásthildur starfaði fyrir utanríkisráðuneytið þegar hún kom heim úr náminu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .