Forskoðun Eftirlitsstofnunar EFTA á raforkusamningi Norðuráls Grundartanga og Landsvirkjunar er lokið með jákvæðri niðurstöðu. Hafa fyrirtækin tvö því undirritað samninginn, sem kveður á um framlengingingu á fyrirliggjandi samningi þeirra frá árinu 1997.

Í tilkynningu frá Landsvirkjun segir að samningurinn sé á kjörum, sem endurspegli raforkuverð á mörkuðum. Hinn framlengdi samningur er til fjögurra ára og hljóðar upp á 161 MW sem er nærri þriðjungur af orkuþörf álversins á Grundartanga. Endurnýjaður samningur tekur gildi í nóvember árið 2019 og gildir til loka árs 2023. Núgildandi samningur verður áfram í gildi til loka október 2019.

Endurnýjaður samningur er tengdur við markaðsverð raforku á Nord Pool raforkumarkaðnum og kemur það í stað álverðstengingar í gildandi samningi.