Halldór Örn Jónsson, framkvæmdastjóri útivistarfyrirtækisins ZO-ON, segir fyrirtækið stefna af fullum krafti á erlend mið eftir að hafa endurmótað ZO-ON vörumerkið og tekið alla hönnun og framleiðslu fyrirtækisins í gegn. Þá segir hann uppgang síðastliðinna ára og vöxt ferðaþjónustunnar hafa haft talsverð áhrif á fyrirtækið.

Ferðamenn 45% kaupenda

Hvaða áhrif hefur uppgangur síðastliðinna ára í hagkerfinu haft á reksturinn hjá ykkur, þá sérstaklega vöxtur ferðaþjónustunnar?

„Við höfum fundið fyrir vextinum. Áhrifin á okkur hafa verið mikil og já­ kvæð. Til að mynda voru um 45% kaupenda í verslunum okkar árið 2015 erlendir ferðamenn. Það er alveg slatti!

Við höfum einnig fundið fyrir styrkingu krónunnar. Um leið og kaupmáttur ferðamanna rýrnar í erlendri mynt – þegar uppihald, gisting og veitingaþjónusta hækkar í verði – þá hefur ferðamað­urinn minna milli handanna til að eyða í annað eins og útivistarfatnað. Það hefur auðvitað neikvæð áhrif á okkur.

Hins vegar hefur kaupmáttaraukning Íslendinga haft mjög jákvæð áhrif á sölu í verslunum. Samsetning hefur tekið töluverðum breytingum þannig að stærri hluti kaupenda er nú Íslendingar.“

Stefna á landvinninga

Í byrjun árs samdi ZO-ON við finnska dreifingaraðilann Sultrade um dreifingu á vörum ykkar í Finnlandi, Eystrasaltslöndunum og Rússlandi. Hver er staðan á því samstarfi?

„Í haust erum við að fara að taka það skref að fara með okkar vörur á erlenda markaði. Það er auðvitað áhætta og óvissa fólgin í slíkri útrás, en ég tel að við séum búin að vinna okkar heimavinnu vel og vandlega. Endurmótunin á stefnu okkar og öll vinnan með CO+ skapar grundvöll fyrir þetta skref. Það að geta kynnt vörumerkið með hnitmiðuðum hætti skiptir öllu máli.

Samstarfið við Sultrade opnar síðan á dreifingarleiðir í Evrópu. Við gerum ráð fyrir því að tekjurnar okkar af vetrarsölunni muni aukast um 10% í gegnum þetta samstarf, sem er ansi gott á svo skömmum tíma. Þetta er alvöru fyrirtæki, með umboð fyrir stór vörumerki á borð við Timberland, New Balance og Speedo. Til að byrja með stefnum við á verslanir í Finnlandi og Eistlandi og jafnvel Rússlandi síðar. Það mun hjálpa mikið til við frekari útflutning og útbreiðslu vörumerkisins.

Svo eru enn stærri markaðir undir sem við ætlum að reyna að komast inn á. Við höfum fengið fyrirspurnir frá Danmörku, Austurríki, Þýskalandi og fleiri stöðum, en við ætlum að taka eitt skref í einu. Við viljum finna réttu aðilana til að vinna með, á okkar forsendum, en á sama tíma passa upp á það að dreifa okkur ekki á of marga staði í einu.“

Hvernig metur þú rekstrarhorfurnar?

„Við sjáum fyrir okkur að vöxturinn verði aðallega í útflutningi okkar á næstu árum. Hvað vöxtinn hér innanlands varðar eru horfurnar svolítið bundnar við það hvernig ferðamannaiðnaðurinn þróast. Það veltur aftur á móti að miklu leyti á gengisþróun krónunnar og svo samsetningu ferðamanna. Með ódýrari flugfargjöldum og auknum flugferðum til Íslands erum við til dæmis að fá meira af þessum helgarferðamönnum og „budget“ ferðamönnum sem versla ekki mikið. Svo er það annar stór óvissuþáttur á hvaða vegferð íslensk verslun er. Hún er að taka gríðarlegum breytingum, með aukinni samkeppni og skilvirkni.

Þegar á heildina er litið horfum við þó mjög björtum augum til framtíðar. Við erum á allt öðrum stað í dag en við vorum á fyrir fimm árum og jafnvel ári síð­an. Við erum með skýra og hnitmiðaða stefnu og stærðin á fyrirtækinu gerir það að verkum að það koma allir að því að móta stefnu fyrirtækisins. Það er mikill styrkur fólginn í því. Við höfum gríðarlega trú á því sem við erum að gera.“

Nánar er rætt við Halldór Örn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .