Rúnar Árnason varð framkvæmdastjóri fyrirtækisins Glerslípun & speglagerð með um klukkustundar fyrirvara árið 2010. Hann og faðir hans höfðu nýkeypt fyrirtækið þegar Rúnar tók við, en þetta nægði þeim ekki því að í þeim blundaði löngum til að verða aðeins stærri. Þeir ákváðu því að bæta Glerborg og EMAR byggingarvörum við og sameina allt undir einu þaki.

Sáu tækifæri í stærðinni

„Eins og hjá öllum fyrirtækum gekk á ýmsu hjá fyrirtækinu Glerborg eftir hrun, en nýir eigendur tóku þar við á árinu 2011, en náðu ekki tökum á rekstrinum og á árinu 2013 var Glerborg til sölu og á góðu verði, að okkar mati. Við ákváðum því að kaupa fyrirtækið.“ „Það sem við sáum við Glerborg var að ná fram samlegðaráhrifum með samruna við Glerslípun & speglagerð. Eftir kaupin tók við sameiningarferli og flutningar. Glerborg var með lager í Keflavík, söludeild í Hafnarfirði og við vorum með verksmiðju í Vatnagörðum.

Við ákváðum að kýla á þetta húsnæði [núverandi húsnæði Glerborgar í Mörkinni 4, innsk. blm.] þegar það losnaði. Faðir minn hafði reyndar verið í rekstri í þessu húsnæði fyrir dálítið mörgum árum, með rúmabúðina Marco til skamms tíma. Við sáum tækifæri í því að vera með lagerinn, verksmiðjuna og verslunina í sama húsi. Þetta gekk eftir. Við náðum fram gríðarlegum samlegðaráhrifum með því.

Undir einu þaki

Þegar reksturinn var kominn undir eitt þak þá hættum með akstur til og frá Keflavík. Við það lækkaði rekstrarkostnaður mikið. Mest af þessu ferli gerðist í fyrra og samlegðaráhrifin hafa komið í ljós í ár. Þetta ár hefur því verið algjör sprengja.“ Löngun feðganna í Glerborg til að verða stórir á markaðnum virðist hafa náð langt því að þetta voru ekki einu fyrirtækjakaup þeirra. „Við keyptum líka rekstur einyrkja, EMAR byggingavörur ehf. sem flytur inn timbur- og álglugga.

Glerborg var áður aðeins með plastglugga. Við sáum að EMAR byggingarvörur voru með góða glugga og í raun akkúrat það sem okkur langaði að bæta við. Við réðum Eggert Marinósson til okkar og keyptum fyrirtækið. EMAR gluggarnir voru búnir að fara í gegnum allar vottanir hjá Mannvirkjastofnun og standast slagveðursprófanir þannig að við vissum að varan væri góð og gátum sett hana beint í sölu. Það er tiltölulega einfaldara ferli heldur en að finna birgja úti og fara í gegnum öll vottunarferli sem nauðsynlegt er til að fá að selja glugga á Íslandi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð