Fjárstýring Landsbankans hefur fengið Elísabetu G. Björnsdóttur til liðs við sig frá bandaríska fjárfestingarbankanum J.P. Morgan.

„Það hefur alltaf heillað mig að horfa á heildarmyndina og í Fjárstýringu fær maður mikla yfirsýn yfir bankann í heild sinni og verkefnin geta verið fjölbreytt, en deildin hefur meðal annars umsjón með fjármögnun og lausafjárstýringu bankans. Einnig stýrir deildin gengis-, vaxta-, og verðtryggingaráhættu bankans,“ segir Elísabet sem starfað hefur erlendis frá því að hún lauk námi árið 2008.

„Það var mjög skemmtileg og dýrmæt reynsla, en þetta gat auðvitað verið erfitt líka, langur vinnutími og krefjandi starfsumhverfi.“

Elísabet flytur nú heim með Bjarna Jónssyni, manni sínum, og tveim ungum sonum þeirra. „Sá eldri er þriggja og hálfs árs gamall, en hinn er að verða eins árs. Við fórum saman til Bandaríkjanna í nám árið 2007, rétt fyrir hrun sem var mjög góð tímasetning, en eftir námið hóf ég störf í höfuðstöðvum J.P. Morgan í Manhattan, en fluttum svo yfir til London fyrir tæpum sjö árum,“ segir Elísabet sem er spennt fyrir því að vera flutt heim til Íslands og var tækifærið nýtt til að ferðast innanlands.

„Það var æðislegt að fara á Vestfirðina, en ég bjó á Ísafirði í fimm ár þegar ég var yngri meðan faðir minn starfaði við Vestfjarðagöngin, en ég hef ekki komið þangað í næstum því 20 ár,“ segir Elísabet.

„Við komum vestur með vinafólki frá Bolungarvík og gistum þar, keyrðum upp á Bolafjall og fórum mikið í sund enda æðisleg sundlaug í Bolungarvík. En það fyrsta sem ég gerði þegar við komum til Ísafjarðar var að fara í Gamla bakaríið og fá mér snúð með alvöru súkkulaði.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .