Arion banki hefur breytt lántökugjöldum íbúðalána bankans þannig að þau eru nú föst tala, 49.900 krónur, óháð upphæð lána. Hingað til hafa lántökugjöld að jafnaði verið 1% af lánsfjárupphæðinni og því er um umtalsverða lækkun að ræða fyrir flesta lántakendur. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Arion banka.

Breytingin hjá bankanum nær til allra gerða íbúðalána. Bankinn lánar allt að 80% af markaðsvirði eignar og í þeim tilvikum þar sem tekin eru 80% lán, er lánið tvískipt. Annað lánið getur numið að hámarki 70% af fasteignamati eignarinnar en hitt lánið brúar bilið upp í allt að 80% af markaðsvirði. Í slíkum tilvikum er aðeins greitt eitt lántökugjald þó að um tví- eða þrískipt íbúðalán sé að ræða.

„Áfram verður veittur 100% afsláttur af lántökugjöldum við fyrstu íbúðarkaup og lánar bankinn allt að 85% af markaðsvirði fasteignarinnar við fyrstu kaup, að hámarki 30 milljónir eða 85% af markaðsvirði,“ segir að lokum í tilkynningu bankans.