Árið 2008 réðst Barclays í hlutafjáraukningu. Bankinn þurfti því ekki á ríkisaðstoð að halda. Útboðið var þó ekki sérlega vinsælt og hefur breskur fjárfestingarsjóður höfðað mál gegn bankanum.

Í skjölum sem stuðst er við í málinu, sést að Barclays hafi lánað Katarmönnum 3 milljarða Bandaríkjadala, til þess að taka þátt í útboðinu. Fjárfestingarfélag Amöndu Stavely sá um að finna fjárfesta og hlaut til að mynda 40 milljónir punda fyrir störfin sín.

Samkvæmt fréttaveitu Bloomberg, var fjárfestum ekki greint frá hlutafjáraukningunni og lánveitingunum. PCP Capital Partners er einn af sjóðunum sem stefnir nú bankanum og fer fram á 750 milljónir punda í skaðabætur.