Fyrirtækið Zee.Aero er frumkvöðlafyrirtæki í eigu Larry Page, annars stofnanda leitarvélarinnar og netrisans Google. Fyrirtækið starfar að því að þróa fjúgandi bifreiðar, hvorki meira né minna. Mikil leynd hefur ríkt yfir Zee.Aero, en Page hefur varið meira en 100 milljónum dala í verkefnið.

Starfsstöðvar Zee eru staðsettar rétt hjá Googleplex, höfuðstöðvum Google, sem vakti talsverða athygli árið 2010 þegar fyrirtækið var stofnsett - þar eð Google heldur svæði sínu í frekar föstum skorðum. Ekki er hverjum sem er leyft að byggja þar eða búa. Zee er ekki í eigu neins nema Page - Alphabet og Google koma hvorki að rekstri fyrirtækisins né fjárhag. Hins vegar notar Page sitt eigið fjármagn, sem er geysimikið - hann er metinn á fleiri þúsundir milljarða króna - til þess að fjármagna þróun og rekstur fyrirtækisins.

Fullkomnir og auðnothæfir rafknúnir flugbílar eru lokatakmark Zee.Aero. Flugbílar eru einskonar æskudraumur Page, og færist hann þar með í sama flokk og Elon Musk og Jeff Bezos - flokk auðkýfinga sem nota sitt eigið fjármagn til að koma draumum barnæsku sinnar til raunveruleikans. Bezos og Musk reka báðir geimflaugafyrirtæki. Eins og fyrr segir hefur Page varið því sem jafngildir um það bil 12,4 milljörðum króna í þetta hliðarverkefni - og hann hefur síður en svo lokið sér af. Til þess að ýta undir nýsköpunina stofnaði hann svo annað fyrirtæki sem heitir Kitty Hawk sem þróar einnig fljúgandi bifreiðar - en alveg ótengt starfsemi Zee.Aero.

Samtals eru ríflega 12 fyrirtæki á heimsvísu sem er alvara í því að byggja sér flugbíl, en að sögn heimildamanna sem þekkja til geirans og tækninnar eru fyrirtæki Page með þeim sem lengst eru komin í þróun þessara persónulegu flugtækja. Flugtæknir hjá NASA hefur sagt að tækniþróun í geiranum hafi verið ótrúlega snörp á síðasta hálfa áratug eða svo, og að þróunin verði gífurleg á næstu tíu árum. Ljóst er að á næstu misserum verða miklar þróanir í persónulegum samgöngum.

Sjálfkeyrandi, fljúgandi rafmagnsbifreiðar gætu orðið almennur raunveruleiki innan svo lítils sem fimmtíu ára þar eð tæknin er nú fyrst farin að bjóða upp á slíkt - en að sama skapi gæti svo farið að ekkert muni breytast og samgöngur hversdagsins verði alveg eins og þær hafi verið síðustu öldina. Í öllum föllum munu áhugamenn um tækniþróanir hafa nóg að skoða og lesa um.

Ítarlega umfjöllun um Zee.Aero má lesa hér.